Heimsókn í safnið

Heimsókn í safnið

Við tökum á móti gestum og hópum með það að leiðarljósi að veita góða þjónustu og einstaka upplifun.

Sýningastaðir

Bryggjuhúsið

Duus safnahús  Duusgötu 2-8

Í Bryggjuhúsinu eru aðalsýningar safnsins.


Bryggjuhúsið var byggt árið 1877 sem pakkhús Duus verslunar. Húsið er friðlýst og að miklu leyti upprunalegt. Helsta prýði þess er lyftuhjólið í risinu sem notað var til að hífa varning upp á efri hæðir hússins.


Opnunartími (júní - ágúst):

Virkir dagar kl. 10-17.

Helgar kl. 12-17.

Lokað á mánudögum.


Stekkjarkot

við Njarðarbraut

Stekkjarkot er endurgerð á koti sem stóð í Innri-Njarðvík. Húsið er reist úr torfi og grjóti og er dæmigert fyrir þau fjölmörgu kot sem einkenndu búsetu á svæðinu á 19. öld og upphafi 20. aldar. Stekkjarkot var þurrabúð sem þýddi að landið var leigt og þar mátti ekki halda skepnur. Íbúar þurftu því að framfleyta sér með sjósókn.


Búið var í Stekkjarkoti frá 1857-1887 og svo aftur frá 1917-1923. Núverandi hús var reist árið 1993 í tilefni af 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar.


Opið eftir samkomulagi

Innri-Njarðvík

Njarðvíkurbraut 42

 Í Innri-Njarðvík gefst færi á að gægjast aftur til fortíðar og kynnast aðstæðum íbúa á fyrri hluta 20. aldar.


Á stórbýlinu Innri-Njarðvík bjó sama ættin í 300 ár. Saga ættarinnar er samofin Njarðvíkurkirkju þar sem bændurnir voru einnig kirkjuhaldarar. Húsið við Njarðvíkurbraut 42 var byggt árið 1906 og bjuggu þar hjónin Jórunn Jónsdóttir og Helgi Ásbjörnsson. Þegar Jórunn lést árið 1974 var húsið ásamt innbúi gefið til safnsins.


Opið eftir samkomulagi

Aðgengi

Við leggjum okkur fram um að tryggja aðgengi fyrir alla að sýningum okkar.


Bílastæði eru gegnt Duus safnahúsum en bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru við inngang. Í húsunum er aðgengi fyrir hjólastóla tryggt í öllum rýmum.  Athugð þó að þar sem Bryggjuhúsið er gamalt og að miklu leyti upprunalegt að innan er gólf á efri hæðum ójafnt.  Á jarðhæð Bryggjuhússins er salerni sem uppfyllir algilda hönnun.


Aðgengi í Stekkjarkoti og húsi safnsins í Innri-Njarðvík er takmörkunum háð vegna byggingarlags húsanna. Þar eru bílastæði skammt frá húsunum.


Vinsamlegast hafið samband við starfsfólk safnsins sé þörf á frekari upplýsingum um aðgengi.


Fyrir börnin

Við leggjum áherslu á að sýningar okkar höfði til allra aldurshópa.

Til að gera heimsóknina enn skemmtilegri fyrir börn bjóðum við upp á ýmsar þrautir og verkefni til að leysa á sýningunum.

Skóla-

heimsóknir

Skólahópar eru velkomnir í safnið.


Tekið er á móti skólahópum í Duus safnahúsum og í Stekkjarkoti. Æskilegt er að bóka heimsóknir skólahópa fyrirfram.

Aðgangur fyrir skólahópa er ókeypis.


Vinsamlegast hafið samband við starfsfólk safnsins í gegnum netfangið byggdasafn@reykjanesbaer.is.



Hópar

Við tökum vel á móti hópum. Þeir geta ýmist skoðað safnið á eigin vegum eða fengið leiðsögn um sýningar.

 

Tekið er á móti hópum sem koma á eigin vegum í Duus safnahúsum á opnunartíma safnsins. Hægt er að fá stutta kynningu á sýningum safnsins án auka gjalds. Greiða þarf aðgangseyri samkvæmt gjaldskrá.


Hægt er að bóka sérfræðileiðsögn um sýningar safnsins. Bóka þarf leiðsögnina með fyrirvara. Greiða þarf aðgangseyri og gjald fyrir leiðsögnina samkvæmt gjaldsskrá.


Stekkjarkot og hús Jórunnar Jónsdóttur í Innri-Njarðvík eru aðeins opin samkæmt samkomulagi. Starfsfólk safnsins veitir upplýsingar um kostnað.


Vinsamlegast hafið samband vegna bókana hópa á byggdasafn@reykjanesbaer.is

Gjaldskrá

  • Aðgangseyrir í Duus safnahúsum

    Aðgangseyrir fyrir 18 ára og eldri: 1.500 kr.

    Börn yngri en 18 ára: Frítt 

    Aldraðir, námsmenn 18 ára og eldri: 1.200 kr. 

    Aðgangseyrir fyrir hóp ef fleiri en 10 manns eru í hópnum: 1.200 kr. hver gestur

    Aðgangseyrir fyrir hóp ef fleiri en 20 manns eru í hópnum: 1.000 kr. hver gestur

  • Leiðsagnir, móttaka hópa og útseld vinna

    Sérfræðileiðsögn um sýningar: 21.400 kr.

    Móttaka hópa, annarra en skólahópa, í Stekkjarkoti eða Duus safnahúsum: 21.400 kr.

    Útseld vinna sérfræðings: 14.880 kr. hver klukkustund

  • Ljósmyndir

    Skönnun gamalla mynda: 1.825 kr. hver mynd


    Afnot og birting ljósmynda:

    Ljósmynd til einkanota: 4.400 kr.

    Mynd til notkunar í bók, kápa: 22.320 kr.

    Mynd til notkunar í bók, innisíður: 11.160 kr.

    Mynd til notkunar í bók, kápa - endurútgáfa: 11.160 kr.

    Mynd til notkunar í bók, innisíður - endurútgáfa: 6.200 kr.

    Mynd til notkunar í dagblaði: 8.680 kr.

    Sjónvarp, fyrsta birting: 11.160 kr.

    Sjónvarp, önnur birting: 6.200 kr.

    Kynningarrit: 23.500 kr. 

    Auglýsingar: 30.100 kr.

    Póstkort, vörur og minjagripir, allt að 1.000 eintök: 20.460 kr.

    Birtingaréttur fyrir mynd á sýningu: 11.160 kr.



    Um afnot ljósmynda í vörslu Byggðasafns Reykjanesbæjar og sölu á þeim gilda neðangreindir skilmálar: 

     1.    Kaupanda afnotaleyfis er ljóst að ljósmyndin kann að vera háð höfundarétti samkvæmt 1. eða 49. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og skuldbindur sig til að öll notkun hans á ljósmyndinni samrýmist ákvæðum laganna.

    2.    Byggðasafn Reykjanesbæjar heimilar kaupanda afnot ljósmyndarinnar samkvæmt skilmálum þessum. Kaupanda er ljóst að enginn einkaréttur fylgir afnotaleyfinu. Í einhverjum tilvikum þarf einnig að greiða fyrir höfundarrétt. Safnið hefur ekki milligöngu um greiðslur vegna höfundarréttar en vísar á Myndstef. 

    3.    Heimil afnot af ljósmyndinni takmarkast við persónuleg not kaupanda og/eða þau not sem tilgreind eru við pöntun ljósmyndarinnar. Heimil afnot takmarkast ætíð við tilgreinda útgáfu, fjölda eintaka eða það tímabil sem tilgreint er í pöntun.

    4.    Geta skal nafns höfundar (ljósmyndara) og Byggðasafns Reykjanesbæjar á eintökum sem gerð eru á grundvelli afnotaleyfis frá safninu og við birtingu, eftir því sem við á, sbr. 4. gr. laga nr. 73/1972.

    5.    Óheimilt er að gera ljósmyndina aðgengilega á samfélagsmiðlum, svo sem Facebook, Instagram, Twitter, o.s.frv.

    6.    Eftir að ljósmynd hefur verið nýtt ber handhafa afnotaleyfis að eyða eintökum sem notuð hafa verið við vinnsluna eigi síðar en 30 dögum eftir að vinnslu lýkur .

    7.    Kaupandi afnotaleyfis skuldbindur sig til að afhenda Byggðasafni Reykjanesbæjar eitt eintak af útgáfu sem framleidd er á grundvelli afnotaleyfis frá safninu. 

    8.    Afnotaleyfi þetta einskorðast við kaupanda og er ekki framseljanlegt.

     

Í næsta nágrenni

Sýningar Byggðasafns Reykjanesbæjar eru staðsettar í helstu byggðakjörnum sveitarfélagsins.


Bryggjuhúsið er friðlýst og skapar ásamt elstu húsum bæjarins heillandi götumynd. Þau eru í næsta nágrenni við fyrsta þéttbýliskjarnann í Keflavík, falda perlu sem gaman er að ganga um. Við Hafnargötu, skammt frá Duus safnahúsum, eru verslanir og veitingastaðir þar sem hægt er að gera sér glaðan dag.


Innri-Njarðvík státar af mikilli náttúrufegurð og óspilltu menningarlandslagi. Þar má sjá leifar að garðlögum sem afmörkuðu kotbýli, naust og varir að ógleymdum brunnum sem voru eina vatnsuppsprettan í gljúpu hrauninu.


Á Reykjanesskaga eru fjölmargir áhugaverðir áfangastaðir og mikil náttúrufegurð. Má þar sem dæmi nefna Bláa lónið, Brimketil, Gunnuhver, Reykjanesvita, brúna á milli heimsálfa. Reykjanes jarðvangur UNESCO hefur gestastofu í Duus safnahúsum, á sama stað og sýningar Byggðasafns Reykjanesbæjar. 


Upplýsingar um viðburði, afþreyingu, veitingastaði og margt fleira er að finna á upplýsingavef Reykjanesbæjar.


www.visitreykjanesbaer.is

Share by: