Sýningar og viðburðir

Sýningar og viðburðir

Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur sýningar á þremur stöðum:

Í Bryggjuhúsi Duus safnahúsa, Stekkjarkoti og Innri-Njarðvík.

Væntanlegt

Upplýsingar um væntanlegar sýningar og viðburði verða birtar hér

Yfirstandandi

Fast þeir sóttu sjóinn

Í Byggðasafni Reykjanesbæjar eru varðveitt um 140 líkön af skipum og bátum. Langflest þeirra smíðaði Grímur Karlsson skipstjóri.



Grímur hófst handa við smíði líkananna um fimmtugt og safnaði af mikilli elju ýmis konar fróðleik um sögu sjávarútvegs á Íslandi. Grímur var afkastamikill og eftir hann liggja á fimmta hundrað líkön í eigu ýmissa stofnana og einstaklinga. Fyrir smíði sína var Grímur sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 2009, Menningarverðlaun Reykjanesbæjar það sama ár og Sjómannadagsorðuna 2002. Grímur lést árið 2017.

3. júní 2024 - 1. júní 2025  

Bryggjuhúsið - Duus safnahús

Eins manns rusl er annars gull

Hvað eiga pennar, plastpokar, bíóprógrömm, servíettur og eldfæri sameiginlegt?


Á sýningunni eru smáhlutir sem hafa verið framleiddir með ákveðið notagildi í huga. Þegar þeir hafa lokið hlutverki sínu enda þeir oftar en ekki í ruslinu. Til eru þeir sem hafa þó einsett sér að safna slíkum hlutum með það markmið að eignast sem flesta og af mismunandi gerðum. Á sýningunni má sjá smáhluti sem hafa borist Byggðasafni Reykjanesbæjar sem heildstæð einkasöfn eða hluti af öðrum gjöfum.


Annað atriði sem þessir smáhlutir eiga sameiginlegt er að þeir voru fjöldaframleiddir á árum áður en eru margir fágætari í dag. Stór hluti er merktur fyrirtækjum eða vörum og enda voru þeir ýmist gefnir, látnir fylgja með öðrum vörum eða seldir vægu verði. Hér gefst því tækifæri til að rifja upp liðna tíð og virða fyrir sér hvernig myndskreytingar og vörumerki hafa breyst. Elstu munirnir eru frá þriðja áratug 20. aldar en þeir yngstu aðeins nokkurra ára eða áratuga gamlir.


Sýningin er staðsett í Bryggjuhúsi Duus safnahúsa.


31. ágúst 2023 - 30. desember 2025

Bryggjuhúsið - Duus safnahús

Ásjóna - Íbúar bæjarins í gegnum tíðina

Ljósmyndasýningin Ásjóna er í Bryggjuhúsi Duus safnahúsa.


Sýningin byggist upp af myndum sem hafa borist safninu í upprunalegum römmum. Þær eiga það sameiginlegt að sýna fólk sem hefur búið á því svæði sem tilheyrir Reykjanesbæ. Elstu myndirnar eru líklega um 140 ára gamlar en þær yngstu teknar fyrir 20 árum. Myndir sem fá þann sess að vera settar í ramma og hafðar til sýnis hafa yfirleitt ákveðið gildi í augum eigandans. Þær sýna gjarnan ástvini sem eru fjarri eða eru teknar við tímamót í lífinu. Væntumþykja, stolt eða söknuður eru meðal þeirra tilfinninga sem eru tjáð með þessum hætti.

17. júní 2023 - 30. september 2025

Bryggjuhúsið - Duus safnahús

Innan girðingar og utan

Byggðasafn Reykjanesbæjar og Þjóðminjasafn Íslands safna frásögnum um varnarliðið á Miðnesheiði og áhrif þess á líf og störf Íslendinga. Markmiðið er að safna heimildum um persónulega upplifun fólks.

 

Útbúnar hafa verið fjórar spurningaskrár. Þrjár eru á íslensku og fjalla um vinnuna á Vellinum, menningaráhrif og hernaðarandstöðu. Sú fjórða er á ensku og er ætluð hermönnum og fjölskyldum þeirra sem dvöldu á Íslandi.

 

Þau sem hafa áhuga geta tekið þátt í verkefninu og svarað einni eða fleiri spurningaskrám á netinu.  Allir landsmenn eru hvattir til að taka þátt enda hafði vera hersins áhrif víða. Spurningaskrárnar er hægt að nálgast í gegnum menningarsögulega gagnasafnið Sarp.


https://sarpur.is/Spurningaskrar.aspx?View=small

14. mars 2023 - 30. desember 2025

Vefur - www.sarpur.is

Hér sit ég og sauma

Fatasaumur var eitt af verkefnum kvenna á árum áður og var saumaskapur mikilsmetið handverk. Tilkoma saumavélarinnar olli byltingu og sagt var að saumavél gæti sparað eina vinnukonu. Sumar konur urðu þekktar fyrir saumaskap sinn og gerði saumavélin þeim kleift að afla tekna.


Byggðasafn Reykjanesbæjar varðveitir yfir 60 saumavélar, þar á meðal saumavél sem framleidd var á árunum 1860-1870. Líklega er um að ræða eina af elstu saumavélum landsins.


Sýningin er í Bryggjuhúsi Duus safnahúsa.




1. september 2022 - 30. september 2025

Bryggjuhúsið - Duus safnahús

Liðið

Barnaleiðsögn um Bryggjuhúsið

Byggðasafn Reykjanesbæjar býður gesti velkomna í barnaleiðsögn um Bryggjuhús Duus safnahúsa.

Bryggjuhúsið og Bíósalurinn í Duus-húsunum eru yfir hundrað ára gömul og geyma ýmsa leyndardóma og skrítnar sögur. Sebastían Arnarson, sérfræðingur í safninu, mun leiða fjölskyldur og aðra áhugasama gesti í gegnum húsið og segja frá týndum brunnum, strönduðum skipum, legó-húsum og klókum köttum.


Leiðsögnin hefst klukkan 14:00 sunnudag 27.október í Bíósalnum og aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis. 






Sunnudaginn 27. október kl. 14

Bryggjuhúsið - Duus safnahús

Þurrabúðarlífið í Stekkjarkoti

Stekkjarkot er endurgerð á koti sem stóð í Innri-Njarðvík. Húsið er reist úr torfi og grjóti og er dæmigert fyrir þau fjölmörgu kot sem einkenndu búsetu á svæðinu á 19. öld og upphafi 20. aldar. Stekkjarkot var þurrabúð sem þýddi að landið var leigt og þar mátti ekki halda skepnur. Íbúar þurftu því að framfleyta sér með sjósókn.


Búið var í Stekkjarkoti frá 1857-1887 og svo aftur frá 1917-1923. Núverandi hús var reist árið 1993 í tilefni af 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar.


Stekkjarkot verður opið í tilefni af Safnahelgi á Suðurnesjum. Aðgangur er ókeypis. Verið öll velkomin.



Laugardagur 26.  október kl. 13-16

Sunnudagur 27.  október kl. 13-16

Stekkjarkot við Njarðarbraut

Safnahelgi á Suðurnesjum

Safnahelgi á Suðurnesjum verður haldin 25. - 27. október 2024.


Safnahelgi á Suðurnesjum er haldin árlega, uppfull af skemmtilegum uppákomum og viðburðum um allan Reykjanesskagann. Safnahelgi er samstarfsverkefni safna, setra og sýninga á Suðurnesjum sem opna dyrnar sínar fyrir íbúum og gestum svæðisins. Dagskrá helgarinnar er fjölbreytt og skemmtileg fyrir alla fjölskylduna.


Byggðasafn Reykjanesbæjar tekur að sjálfsögðu þátt og býður gestum velkomna á sýningar í Duus safnahúsum og Stekkjarkoti.


Dagskrána má nálgast á www.safnahelgi.is 



25. - 27. október

Suðurnes

Söguganga um Keflavík

Síðasta söguganga sumarsins verður farin sunnudaginn 8. september kl. 11. Gangan hefst við gamla Keflavíkurbæinn  sem liggur grafinn undir Keflavíkurtúninu gegnt Duus safnahúsum. Leiðsögumaður er Agnar Guðmundsson. Gengið verður um gömlu Keflavík og sagt frá helstu atburðum, fólki og stöðum sem hafa sett mark sitt á söguna.


Verið öll velkomin! Þáttaka er ókeypis. Gestum er bent á að klæða sig eftir veðri. Boðið verður upp á kaffi og með því í Duus safnahúsum að göngunni lokinni.


Í tilefni af 30 ára afmæli Reykjanesbæjar stendur safnið fyrir sögugöngum um hverfi bæjarins í sumar. Göngurnar verða auglýstar á vef safnsins og samfélagsmiðlum.



Sunnudaginn 8. september kl. 11

Duus safnahús, Duusgötu 2-8

Rís þú, unga Íslands merki

Um þessar mundir er því fagnað að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldisins. Þann 17. júní 1944 tók ný stjórnarskrá landsins gildi og lýðveldishátíð var haldin á Þingvöllum. Þangað fylktu landsmenn liði og er talið að á bilinu 25-30 þúsund manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum.


Sýndur verður fáninn sem var hylltur á lýðveldishátíðinni en hann er engin smásmíði að stærð, rúmir 23 fermetrar.



17. júní - 18. ágúst  2024

Bíósalur - Duus safnahús

Sögurúntur um Ásbrú

Fjórða sögugana sumarsins verður um Ásbrú miðvikudaginn 14. ágúst kl. 20. Þar sem Ásbrú er víðfem verður ekki um eiginlega göngu að ræða heldur verður gestum boðið á rúntinn í strætó. Fjallað verður um upphaf og tilurð Keflavikurstöðvarinnar frá 1951 og sagt frá samskiptum Bandaríkjamanna og Íslendinga. Rætt verður um mannvirki og byggingar sem eru eru enn uppistandandi en aðrar geymdar í minningum. Leiðsögumaður er Kristján Jóhannsson. Ferðin tekur 60 - 90 mínútur.


"Sögurúnturinn" hefst við Flugvallarbraut 710 og er þátttaka ókeypis. Fjöldi gesta takmarkast við 75 þar sem ferðin er farin í bíl. Starfsmaður safnsins mun úthluta númerum frá kl. 19.45 og mun fyrstur kemur, fyrstur fær gilda.


Í tilefni af 30 ára afmæli Reykjanesbæjar stendur safnið fyrir sögugöngum um hverfi bæjarins í sumar. Göngurnar verða auglýstar á vef safnsins og samfélagsmiðlum.

Miðvikudaginn 14. ágúst kl. 20

Flugvallarbraut 710

Söguganga í Ytri Njarðvík

Söguganga verður um Ytri Njarðvík þriðjudaginn 30. júlí kl. 20.  Gangan hefst við Ytri Njarðvikurkirkju.  Leiðsögumaður er Kristján Jóhannsson. Farið verður um gömlu Njarðvík og sögur sagðar af húsunum og fólkinu sem þar bjó.


Verið öll velkomin! Þáttaka er ókeypis. Gestum er bent á að klæða sig eftir veðri.


Í tilefni af 30 ára afmæli Reykjanesbæjar stendur safnið fyrir sögugöngum um hverfi bæjarins í sumar. Göngurnar verða auglýstar á vef safnsins og samfélagsmiðlum.

Þriðjudaginn 30. júlí kl. 20

Við Ytri Njarðvíkurkirkju

Söguganga í Innri-Njarðvík

Helga Ingimundardóttir segir frá sögu og minjum í Innri-Njarðvík. Gangan hefst við Akurskóla og verður m.a. stoppað við kirkjuna í Innri-Njarðvík og hús byggðasafnsins við Njarðvíkurbraut skoðað. Verið öll velkomin!

Þáttaka er ókeypis. Gestum er bent á að klæða sig eftir veðri þar sem dagskráin fer að mestu fram utan dyra.


Í tilefni af 30 ára afmæli Reykjanesbæjar stendur safnið fyrir sögugöngum um hverfi bæjarins í sumar. Göngurnar verða auglýstar á vef safnsins og samfélagsmiðlum.

Miðvikudaginn 3. júlí kl. 20

Við Akurskóla

Söguganga - Víkingaaldarskáli í Höfnum

Ármann Guðmundsson, fornleifafræðingur, mun leiða gesti um minjasvæðið í Höfnum þar sem skáli frá 9. öld fannst og segja frá rannsókninni á honum. Skálinn var líklega reistur fyrir þann tíma sem almennt er talið að landið hafi verið numið, og virðist hann hafa verið í notkun fram á 10. öld.


Gangan hefst fimmtudaginn 13. júní við Kirkjuvogskirkju. Verið öll velkomin!





13. júní 2024 kl. 20

Kirkjuvogskirkja í Höfnum

Hlustað á hafið

“Þegar ég kem út á nóttunni þá tek ég alltaf eftir því hvaðan hljóðin koma og hvernig þau eru. Það er aðalatriðið en þar næst er sjávarlagið og útlit hafsins.“ Bjarni formaður í Höfnum.


Sýningin fjallar um náin tengsl sjómanna árabátatímans við hafið umhverfis Reykjanesið. Sýningunni er ætlað að veita örlitla innsýn í þann heim sem hafið var, stundum blítt og létt, en kannski oftar úfið og krafðist reglulega mannfórna. Á sýningunni er m.a. tveggja manna far í fullri stærð sem smíðað var eftir fyrstu nákvæmu teikningunni af slíkum bát frá 1772. 


Share by: